138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil leggja orð í belg um fundarstjórn forseta. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson hvatti til þess að fundir yrðu látnir standa sem lengst svo að sem mest fengist út úr umræðunum. Það segir sig sjálft að ekki fæst eins mikið út úr umræðunum og verða mætti ef stjórnarliðar hafa ekki einu sinni fyrir því að hlusta á þær, hvað þá að taka þátt í þeim. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson benti á að ekki væri hægt að skikka menn til þess að tala en það er þó skylda þingmanna að fylgjast með umræðum. Ef þingmenn stjórnarinnar gera það ekki er ekki eins mikið gagn í þessum kvöldfundum sem þingflokksformaður Samfylkingarinnar kallaði eftir.

Ég vil jafnframt taka undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar þar sem hann hvatti hæstv. forseta (Forseti hringir.) til að hleypa hæstv. utanríkisráðherra að til að ræða þau mál sem nefnd hafa verið.