138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ef það mætti greiða fyrir þingstörfum get ég alveg lýst því yfir að ef það kemur fram einhver ræða hjá hv. stjórnarandstöðuþingmönnum sem ég tel að gefi efni til þess að ég haldi aðra ræðu, þá mun ég gera það.

Að öðru leyti verða hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að gera sér grein fyrir því að þegar þeir telja að það sé mikið og erfitt mál undir sem þeir segja sjálfir að þurfi að ræða mjög mikið, þá hljóta þeir að vera reiðubúnir til að sitja nokkur kvöld og jafnvel nokkrar nætur til að ræða málið. Ég spyr: Hvar eru þingmenn stjórnarliðsins núna? (Gripið fram í.) Af hverju eru þeir ekki allir hérna? Stjórnarliðið hefur haldið margar ræður og lýst sinni afstöðu. Ég hef t.d. gert það.

Að því er varðar það sem hv. þingmenn hafa verið að tala um varðandi ummæli hæstv. fjármálaráðherra fyrr í dag, geri ég ráð fyrir að hann eigi við það bréf sem barst frá Bretum til Evrópusambandsins í fyrrahaust þar sem þeir voru í reynd að beita þrýstingi til að kanna hvort hægt væri að kippa úr sambandi ákveðnum (Forseti hringir.) hlutum EES-samningsins. Þetta er allt saman upplýst í ræðu sem formaður Sjálfstæðisflokksins hélt á sínum tíma. Það voru hótanir.