138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:17]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Til að greiða fyrir þingstörfunum held ég að það liggi alveg fyrir að hæstv. utanríkisráðherra, ef hann er fullur vilja til að láta það gerast og fullur vilja til að eiga orðaskipti um þetta stóra mál, komist ekki hjá því að koma upp og taka þátt í umræðunni. Hæstv. fjármálaráðherra kom hér í dag og hélt ræðu sem er um margt mjög sérstök. (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra kallar af hverju ég beini þessu ekki til hæstv. fjármálaráðherra. Það er einfalt. Ég er búinn að spyrja hæstv. fjármálaráðherra ákveðinna spurninga úr þessum stóli og það var fátt um svör. Ég á mjög erfitt með að finna stjórnarliða sem hefur sannfæringu í þessu máli eða er tilbúinn að skiptast á skoðunum hvað þetta varðar, og nú ætla ég að skjalla hæstv. utanríkisráðherra, ef hann væri svo vænn að hlusta á það. (Gripið fram í.) Já, ég þóttist vita það, hæstv. utanríkisráðherra, að þetta mundi vekja viðkomandi, (Forseti hringir.) en ég sé ákveðinn vonarpening í hæstv. utanríkisráðherra, að hann hafi örlitla sannfæringu (Forseti hringir.) í málinu. Ég bíð spenntur. Nóttin er ung. (Gripið fram í: Hann er ekki forsætisráðherra.)