138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ja, vextirnir eru nú eitt og það að halda því fram að þetta séu hagstæðustu vextir sem hugsast geta þá hafa mjög margir orðið til að benda á hversu fráleit sú staðhæfing er, fyrir utan að í þessu máli ættu augljóslega ekki að gilda einhverjir markaðsvextir. Hér er um að ræða, eins og ríkisstjórnin hefur margoft bent á, milliríkjadeilur og auk þess erum við að ræða þrotabú. Yfirleitt eru ekki borgaðir neinir vextir þegar um þrotabú er að ræða. Að undanförnu hafa líka ýmsir bent á, og þar hefur farið fremstur í flokki hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, að breytilegir vextir hefðu í raun verið miklu, miklu hagstæðari og munar þar tugum milljarða, jafnvel hundruðum. Hitt er með lánshæfismatsfyrirtækin og þá fráleitu fullyrðingu að aukin skuldsetning gæti bætt lánshæfismat ríkisins, það er jafnfráleitt eins og þegar fullyrt var í upphafi að það að ganga frá Icesave-samningunum (Forseti hringir.) mundi styrkja gengi krónunnar en raunin varð auðvitað þveröfug.