138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skýra og greinargóða ræðu. Ég heyri að hann er með fleiri atriði sem hann þarf að ræða og ég hlakka til að hlusta á þriðju ræðu hans.

En það eru nokkur atriði sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Í fyrsta lagi hvaða áhrif það hefur á lánshæfismatið að taka lán og auka þannig skuldir, hvernig er samspilið þarna á milli? Það væri ágætt að fá fram skoðanir hv. þingmanns á því.

Síðan langar mig, þar sem ég sé að hæstv. fjármálaráðherra náði ekki að smeygja sér í andsvar við hv. þingmann, að gerast fyrirspyrjandi fyrir hans hönd og spyrja hvaða lausnir hv. þingmaður hafi á þessari deilu sem við vissulega stöndum í. Við í stjórnarandstöðunni höfum verið sökuð um það að standa hér og kvabba en leita ekki neinna nýrra lausna en ég þykist vita að hv. þingmaður, ekki þó enn þá ráðherra, lumi á einhverjum slíkum ráðum.