138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ekki það sem hv. þingmaður var að segja hér allra síðast, en að öðru leyti sýndi hann það rækilega að hann er nánast jafnmikill húmoristi og sjálfur utanríkisráðherrann.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að einu. Hann vísaði til Alistairs Darlings sem sagði að Bretar mundu ekki ábyrgjast lánveitingar sem væru utan Bretlands. Er þetta ekki skynsamleg afstaða hjá fjármálaráðherra Bretlands? Mig langar að spyrja hv. þingmann að því.

Hv. þingmaður sagði að það sama hlyti að eiga við um Ísland en á þessu er bara einn munur og hann er sá að Íslendingar tóku þetta að sér. Hv. þingmaður má rifja það upp fyrir utanríkisráðherra sem er nú tekinn að reskjast og bila í minni, en hvaða flokki tilheyrði sá viðskiptaráðherra sem veitti leyfin til lánveitinganna, bæði í Hollandi og Bretlandi?