138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flutti alveg fantalega góða ræðu áðan og hann upplýsti það að vegna þess að hann hefði svo margt að segja þá hefði hann sett það upp í excel. Ég vil mælast til þess til að greiða fyrir þingstörfum að allir þingmenn stjórnarandstöðunnar setji ræður sínar hér eftir upp í excel.

Í öðru lagi kom fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að hann hefði eitthvað við það að athuga að menn væru hérna inn í nóttina vegna þess að nefndafundir verði snemma í fyrramálið. Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að — (TÞH: Nei, alls ekki …) Mér heyrðist það hjá hv. þingmanni. En þá vil ég bara segja við hv. þingmenn að það er ekkert eins gaman og að fara beint af þingfundi á nefndarfund. Það er mín reynsla hér í þingsölum að menn verða því skýrari í hugsun sem þeir vaka lengur í þessum sölum. Þetta vildi ég að kæmi fram. Svo sagði hv. þm. Tryggvi Þór líka að það væri ekki hægt að vita neitt um það hvað væru margir á mælendaskrá (Forseti hringir.) því menn hefðu tendens til þess að tala aftur. En getum við sameinast um það, ég og hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, að lágmarka þá óvissu með því að menn einfaldlega hættu við (Forseti hringir.) að setja sig aftur á mælendaskrána? Það held ég væri gott ráð.