138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður upplýsir næsta þátt málsins sem er að hér sé bent á Norðurlöndin. Norðmenn hafa svarað því skýrt að þetta tengist ekki á nokkurn hátt. Þegar hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, spurði: Ætlar hæstv. forsætisráðherra ekki að hafa samband við Norðurlöndin vegna þessa? sagði hæstv. forsætisráðherra að hún hefði bara engan áhuga á því.

Ef Norðurlöndin ganga í innheimtuhlutverk fyrir Breta, Hollendinga og Evrópusambandið þurfum við að endurskoða okkar Norðurlandasamstarf. Það er ekkert öðruvísi. Mér finnst það sérstakt rannsóknarefni og einhver fjölmiðill hefði einhvern tímann skoðað eitthvað slíkt.

Þá kem ég að hinu sem hv. þingmaður kom inn á og sem ég ræddi lítillega í fyrra andsvari mínu, hver gætir hagsmuna Íslands hér ef það er þannig, sem það augljóslega er, að hæstv. fjármálaráðherra biður Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hjálp til að knýja málið gegnum þingið og vill ekki taka mark á yfirlýsingum framkvæmdastjórans? Ég held að hver maður hljóti að spyrja sig þess.