138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hans. Norðurlandasamstarfið er nú efni í sér umræðu. Það er alltaf gerð krafa á hendur Íslendingum að þeir styðji Norðurlöndin, það er bara almenn regla sem hefur gilt frá því þeir tóku þátt í þessu samstarfi út frá ýmsum forsendum. Ef þeir vinna virkilega með þessum hætti, sem að vísu hefur hvergi verið staðfest, þarf að fara yfir það því alvarlegri verða málin ekki á þeim vettvangi.

Þá kemur líka að því sem hv. þingmaður benti réttilega á, hverju hæstv. ráðherrar trúa. Ég er alveg sammála, ég t.d. held að það væri ekki farsælt ef hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson væri t.d. kosningastjóri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Ég held að það væri ekki gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn en fínt fyrir Samfylkinguna.

Það kom fram hjá hæstv. samgönguráðherra hér áðan að þessi einlæga trú Samfylkingarinnar á Evrópusambandinu er oft og tíðum hreinlega barnaleg. Ég hef notað þá samlíkingu að samfylkingarmenn reyni oft að sannfæra okkur um að Evrópusambandið sé einhvers konar Hálsaskógur eftir að Mikki refur varð grænmetisæta og það leysist allt ef við förum þarna inn og öllu sé til þess fórnandi. Þegar Evrópusambandið eða forusturíki þess segja: Þið eigið að borga út frá einhverjum ákveðnum forsendum, þá verða þeir bara meðvirkir. Þetta kemur betur og skýrar í ljós í þau fáu skipti sem þessir hæstv. ráðherrar koma hingað upp. Þetta er kannski ein af ástæðunum fyrir því að ég held að það sé ekki gott að Samfylkingin fari með samningsumboð okkar (Forseti hringir.) gagnvart Evrópusambandinu á öðrum vettvangi, sem við ræðum kannski á eftir.