138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég get alveg tekið undir lokaorð hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar. Ég held að það sé ástæða til að hvetja sem flesta til að taka þátt í þessari umræðu og vera viðstaddir umræðuna. Ég get ekki gert neinar athugasemdir við þau orð. Ég vil bæta um betur og segja að það væri mikill ávinningur af því ef fleiri þingmenn tækju þátt í þessari umræðu og hv. þingmaður, sem auðvitað hefur góð kynni af málinu í gegnum störf sín í fjárlaganefnd, gæti t.d. upplýst um það á hvaða forsendum hann styður þetta mál, því að ég geri ráð fyrir því að hann geri það. (Gripið fram í.) Það hefur reyndar ekki komið fram hér í þingsal að hann styðji það en ég geri ráð fyrir því. Það er mjög mikilvægt fyrir rökræður sem eiga sér stað hér í þinginu að mismunandi sjónarmið komi fram en ekki að menn reyni að þegja sig í gegnum einhver mál. Það sama á auðvitað við um hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem lítið hafa tjáð sig í þessari umræðu, nema hv. þm. (Forseti hringir.) Árni Þór Sigurðsson stöku sinnum í umræðum um fundarstjórn forseta.