138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:59]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ekki nokkur hv. þingmaður dregur í efa og velkist í vafa um hversu mikilvægt það mál er sem við erum að fást við í þessari umræðu. Við hljótum því að velta því fyrir okkur hvers vegna stjórnarliðar taka jafnlítinn þátt í umræðunni og raun ber vitni. Það er sorglegt til þess að vita, burt séð frá því hvar menn standa í flokki, að í jafnveigamiklu og örlagaríku máli eins og þessu skuli svo fáir stjórnarliðar tjá sig.

Ég hef enga aðra skýringu á þessu en þá að fyrirkomulag og skipulag þingfunda sé með þeim ósköpum að stjórnarliðar vilja ekki taka þátt í þessari umræðu. Varla getur það verið, frú forseti, að stjórnarliðar taki ekki þátt hér vegna þess að þeir hafi ekkert að segja, að þeir hafi ekkert um þetta risamál að segja, að þeir séu ekki tilbúnir í rökræður við okkur (Forseti hringir.) stjórnarandstæðinga í málinu. Ég bara trúi því ekki. Þá stendur bara eitt eftir og það er lélegt skipulag þingfunda (Forseti hringir.) hér í þinginu.