138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það sem við erum búin að sjá og hlusta á hér segir okkur að við eigum mjög langt í land með að ræða þetta mál. Hér hafa hæstv. ráðherrar komið upp og afhjúpað í besta falli þekkingarleysi sitt á málinu. Allur þingheimur hefur hlustað á það að hæstv. ráðherrar, meira að segja hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt að allir fyrirvararnir séu inni. Það var það sem hæstv. utanríkisráðherra sagði.

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst að við þurfum að halda umræðunni áfram, og ef stjórn þingsins eða virðulegi forseti telur nauðsynlegt að gera það fram eftir nóttu og þá muni kenning hæstv. utanríkisráðherra ná fram, að þá fari stjórnarliðar að hugsa skýrar, ég vona að það sé rétt, en það væri ekki verra að fá að vita hver áætlunin er.