138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:14]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Þórs Saaris að hann ræddi einmitt um það sem hann kallaði eðlileg samskipti ríkja sem ættu í milliríkjadeilu. Ég get tekið undir með honum að það er hæpið að þannig hafi verið haldið á málum af hálfu stjórnvalda að hægt sé að segja að öll vinnubrögð hafi verið með þeim hætti sem menn væru sáttir við.

Ég vil líka um leið bera það undir hv. þm. Þór Saari hvort hann geti verið sammála mér í því að hér er ekki um neina venjulega milliríkjadeilu að ræða. Hér er um að ræða kröfu tveggja þjóða á hendur annarri þjóð þar sem verið er að gera kröfu um ábyrgð á allt að því helmingi af þjóðarframleiðslu viðkomandi þjóðar sem eru gríðarlegir fjármunir og vart hægt að finna nokkur dæmi sambærileg við þær kröfur sem eru gerðar gagnvart okkur Íslendingum. Hlýtur það ekki að vera afskaplega undarlegt í þessari kröfugerð allri að við Íslendingar séum að ræða frumvarp þar sem er ákvæði sem segir að við ætlum okkur ekki að viðurkenna að við berum ábyrgð á því að borga þessar fjárhæðir, okkur beri ekki skylda til þess en við ætlum samt að gera það, að því er virðist, vegna þess að við erum beitt þvingunum? Við erum beitt þvingunum af hálfu þjóða sem eru margfalt fjölmennari, stærri og öflugri en við. Þar með má segja að allt málið sé komið úr því hefðbundna ferli sem menn geta haft um viðræður þjóða sem eiga í eðlilegri deilu. Hér er ekki lengur eðlileg deila. Getur hv. þm. Þór Saari tekið undir með mér og verið sammála hv. þingmönnum um það að menn hefðu kosið að t.d. hæstv. forsætisráðherra hefði beitt sér af meiri festu og meiri hörku í umræðum og viðræðum við þessar þjóðir en raun ber vitni? Það væri áhugavert að heyra skoðun hv. þingmanns á því.