138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þykja áhugaverðar hugleiðingar hv. þm. Þórs Saaris um að fenginn verði sáttasemjari til að vinna með þessum þjóðum því að augljóst er að við eigum ekkert roð í þær í samningum vegna þess að sá samningur sem liggur fyrir okkur núna og ætlast er til að við veitum ábyrgð á er greinilega þannig vaxinn að hann veitir sömu niðurstöðu og hefðum við tapað í dómsmáli, allur okkar málflutningur verið dæmdur ógildur og ómarktækur og okkur bæri að borga hverja einustu krónu. En í því frumvarpi sem nú er rætt um tökum við einmitt skýrt fram að okkur beri ekki að gera slíkt þannig að ég er alveg sammála hv. þingmanni um að hér sé greinilega neytt aflsmunar, sem síðan birtist í því að samningurinn hallar svo gersamlega og algerlega á smáþjóðina að hún ein á að bera allan hallann á málinu og það er auðvitað óásættanlegt. Ég tek undir með hv. þm. Þór Saari að áhugavert væri að fá til okkar sáttasemjara um þetta mál og ég vil gjarnan fá að heyra meira frá hv. þingmanni um þann þátt málsins.