138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni andsvarið. Þær tölur sem lágu fyrir í vor um fólksflutninga voru ekki glæsilegar. Fyrstu sex mánuði ársins fluttu 10 fjölskyldur úr landi hvern virkan dag vikunnar. Það er ekkert smáræði fyrir fámenna þjóð eins og Íslendinga, 10 fjölskyldur á dag hvern virkan dag vikunnar. Ég veit ekki hvert framhaldið hefur orðið á því, ég hef ekki séð neinar nýjar tölur. Það er engu að síður stöðugur fólksflutningur úr landinu. Þótt verið geti að hann teljist ekki stórfelldur þá veit ég ekki nákvæmlega hver sá mælikvarði ætti að vera. En við vitum það hins vegar að þeir sem flytja úr landi eru þeir sem mesta möguleika hafa á því að fá sér vinnu annars staðar. Það er þá yfirleitt fólk sem er undir meðalaldri, vel menntað, með einhverja reynslu eða færni, sérfræðiþekkingu. Ég þekki töluvert af fólki sem er núna að lenda í annað sinn á lífsleiðinni í kreppu vegna húsnæðiskaupa. Það lenti í niðursveiflunni og aftengingu launavísitölunnar í kringum 1988, 1989 og tapaði öllu sínu, er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið aftur og er aftur knésett. Það er að flytja úr landi og segist aldrei ætla að koma aftur.

Ég hef sjálfur búið lengi erlendis, bjó í Bandaríkjunum samfleytt í um 10 ár, var þar í háskólum og það fólk sem var þar í námi og var frá löndum sem mætti kalla þróunarlönd eða þriðja heims ríki var fólk sem var að ná sér í menntun og hafði ekki í huga að snúa heim aftur vegna alvarlegs efnahagsástands heima fyrir. Svona aðstæður er náttúrlega gríðarleg blóðtaka fyrir allar þjóðir og fyrir Íslendinga líka. Það er ekki útlit fyrir að það rætist hér úr í efnahagsmálum næstu árin, því miður og til að fólk flytjist hingað heim aftur þarf að vera góð og gild ástæða til að það gerist og með núverandi ríkisstjórn fæ ég ekki séð að þær aðstæður skapist nokkurn tíma í bráð.