138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:38]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við ræðum lengd umræðunnar, höfum verið að því, og ljóst er að búið er að brjóta Evrópusambandstilskipunina um lágmarkshvíld eins og við höfum rætt. Ég held að það skipti máli, ef menn ætla að vera hérna, að þeir fái þá eins mikið út úr þessu og mögulegt er. Við höfum orðið vitni að því, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherrar virðast algerlega misskilja þetta mál. Hér kom hæstv. utanríkisráðherra og sagði að fyrirvararnir væru inni í þessu nýja samkomulagi.

Virðulegi forseti. Ég er ekki að gera grín. Hæstv. ráðherra sagði þetta. (Gripið fram í: Hann sagði þetta.) (Gripið fram í.) Ég held að það skipti máli, virðulegi forseti, að stjórnarliðar afhjúpi sig ef þeir virkilega trúa þessu og muldri ekki eitthvað, eins og hæstv. ráðherra, úr sæti sínu. (Gripið fram í.) Hér erum við með hvorki meira né minna en hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra, því væri fróðlegt að heyra túlkun hans á málinu.