138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:45]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Kallað hefur verið eftir því að stjórnarandstæðingar skipuleggi störf þingsins. Það er auðvitað það sem við höfum verið að reyna úr því að stjórnarliðum er það fullkomlega ómögulegt. Þess vegna hefur stjórnarandstaðan gert stjórnarmeirihlutanum það tilboð að taka fyrir mikilvæg mál sem snúa að afgreiðslu fjárlaga, afmarka í tíma hversu lengi þau verða rædd, taka þau hérna á milli eins og gert var með fjáraukann á mánudagskvöldið sem var skynsamlegt. Sama hefði verið skynsamlegt að gera með skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar sem hefðu getað farið til nefndar þannig að hægt væri að vinna þau á nefndardögum og halda síðan áfram með Icesave-umræðuna ef hún væri enn á dagskrá, ef henni væri þá ólokið.

Þetta er tilboð sem stjórnarandstaðan gerir og það á líka við um þessa umræðu. Að sjálfsögðu kallar það á heilmikið skipulag af hálfu stjórnarandstöðunnar að kalla til fólk á öllum tímum sólarhringsins án þess að vita nokkurn skapaðan hlut um það hversu lengi fundir standa úr því að forseti vill láta reyna á það hvort næst að tæma mælendaskrá til að klára málið án þess að það sé útrætt af hálfu stjórnarandstöðunnar og ekki taka stjórnarliðar þátt í umræðunni af viti nema helst um fundarstjórn forseta.