138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:46]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð ræða hjá þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Illuga Gunnarssyni, því hér sagði hann það berum orðum að í gangi væri málþóf sem hefði það að markmiði að minni hlutinn geti kúgað meiri hlutann. Það sagði hann í ræðunni. Hann vill sem sagt standa gegn því að meiri hluti þingsins fái að koma að þessu máli til málefnalegrar afgreiðslu. Það er markmið í sjálfu sér að koma í veg fyrir að meiri hlutinn fái að koma fram í þessu máli. Það er markmið í sjálfu sér af hálfu Sjálfstæðisflokksins og þá væntanlega allrar stjórnarandstöðunnar að reyna að halda uppi málþófi til að koma í veg fyrir málefnalega niðurstöðu í málinu. Þetta er athyglisverð játning frá hv. þingmanni.