138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mig langar að ræða um stöðu málsins. Þannig er mál með vexti að allur heimurinn er síbreytilegur og því tökum við eftir. Það var mikil áþján fyrir rúmu ári, í október, og gerðust miklir hlutir á Íslandi og víðar í heiminum og heimurinn er enn að ná sér eftir það. Þá voru sett hryðjuverkalög á Ísland sem höfðu geigvænleg áhrif á gjaldeyrismarkaðinn. Það voru gjaldeyrishótanir, bankarnir íslensku féllu og ekki var hægt að flytja gjaldeyri til Íslands. Útgerðarmenn, sem áttu peninga í útlöndum, gátu ekki fengið gjaldeyrinn heim og innflytjendur þurftu að staðgreiða. Upp var komin sú staða að ekki var einu sinni til gjaldeyrir fyrir olíu og lyfjum, eða stefndi í það. Þetta var sem sagt mjög uggvænleg staða.

Til viðbótar komu grímulausar hótanir Evrópusambandsins. Íslendingar áttu að bjarga trausti sparifjáreigenda á bönkunum í Evrópu, íslenskum skattgreiðendum skyldi fórnað til að bjarga trausti sparifjáreigenda um alla Evrópu vegna þess að á Íslandi kom í ljós að tilskipun Evrópusambandsins er gölluð og ónýt.

Síðan kemur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Við neyðumst til að leita til hans. Hann kemur og hann byrjar strax, frú forseti, að kúga Íslendinga með því að tefja fyrir og tengja saman einhver óskyld mál. Við munum alltaf eftir því þegar við biðum eftir öðrum áfanga í endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, við biðum og biðum og alltaf voru gefnar einhverjar furðulegar útskýringar. Auðvitað var þetta kúgun. Það var verið að nota Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í þágu Breta og Hollendinga til að ná í þessa aura. Það var bara þannig.

Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn afneitað þessum tengslum. Allt í einu er hann hvítþveginn engill, hefur aldrei tengt þetta saman. Þeir sem vilja geta trúað því. En þetta segir okkur hvað heimurinn er að breytast, frú forseti. Fyrir nokkrum dögum kemur svo Dúbaí. Þar kemur upp nákvæmlega sama staða og á Íslandi. Einhverjir glannar í fjármálum höfðu lánað öðrum glönnum til að byggja eitthvað glannalegt og taka gífurlega áhættu. Þar byggðu menn hæsta hús í heimi — minnir dálítið á söguna um Babel úr Biblíunni, frú forseti, en ég ætla ekki að lengja málið með því. Það hús er komið upp í 800 metra en næststærsta húsið er, held ég, rúmlega 500 metrar svo að menn viti stærðarhlutföllin. Þetta hús fer fljótlega að stefna yfir Esjuna. En Dúbaí er sem sagt að hrynja og það segir öllum heiminum að Ísland er ekkert einsdæmi. Þetta eru breytingarnar sem eru að verða, frú forseti.

Síðan kemur mjög merkileg ræða í dag og ég ætla að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hana. Í fyrsta skipti segir íslenskur ráðherra, hæstvirtur, að Íslendingar hafi verið beittir hótunum og kúgunum. „Grímulausar hótanir“, sagði hæstv. ráðherra í dag. Af einhverjum furðulegum ástæðum hefur það ekki farið út í fjölmiðla. Af hverju skyldi það vera, frú forseti? Skyldi vera einhver halli í fjölmiðlum á Íslandi? Slík yfirlýsing í ræðustól Alþingis, um að Ísland hafi verið beitt grímulausum hótunum af Evrópusambandinu, er alveg óskaplega mikil yfirlýsing, gífurleg yfirlýsing, og hún er í fyrsta skipti gefin núna. Þó vitum við að þetta var þannig allt síðasta haust. Þegar Samfylkingin réð yfir viðskiptaráðuneytinu, og þar var allt komið í hönk, og þegar Sjálfstæðisflokkurinn var með forsætisráðuneytið, og menn réðu ekki við neitt — auðvitað voru hótanir í gangi þá en menn sögðu ekki neitt. Það var kannski meinið, frú forseti. Það var þess vegna sem þjóðfundurinn óskaði eftir því að heiðarleiki væri efstur á blaði, heiðarleiki í samskiptum. Það að segja ekki þjóð sinni frá því þegar henni er hótað ber ekki vott um heiðarleika.

Ýmislegt gott er að gerast. Þó að hæstv. forsætisráðherra hafi — ég veit ekki hvað á að kalla það, hótun eða hvað — sagt að það yrði frostavetur eftir 1. desember. Það er reyndar frost úti en hvort það verður frostavetur eins og 1918, ég vona ekki og örugglega ekki út af Icesave. Það gerðist ekki neitt. Það gerðist ekki neitt 1. desember nema ég fór til forsetans, það var ágætt, fór til Bessastaða í boð. (Gripið fram í: Fínn matur.) Fínn matur og ekkert slark. Það gerðist ekki neitt og þetta hafa menn sagt aftur og aftur: Eldur, eldur, eldur, eldur! Og aldrei gerist neitt.

Ég vil líka þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir það að búið er að laga stöðu tveggja íslenskra banka, það er búið að breyta þeim í einkabanka. Þeir eru orðnir eign kröfuhafanna. (Gripið fram í: Það er búið að einkavæða þá.) Þetta er óskaplega stórt skref, frú forseti, og afskaplega ánægjulegt og opnar leið erlendrar þekkingar inn í landið. Þessir aðilar hafa góða þekkingu á bankamálum, kannski umfram það sem við höfðum eftir einkavæðingu bankanna, og geta útvegað lán í góðar framkvæmdir. Þetta er allt mjög jákvætt og þetta gerist þrátt fyrir að við séum ekki búin að samþykkja Icesave. Það gerist þrátt fyrir það.

Mig langar til að hæstv. fjármálaráðherra hlusti á mál mitt, frú forseti. Ég ætla nefnilega að biðja hann um að skoða hvernig þetta er. Hann er reyndar búinn að skrifa undir samkomulag í tvígang við Breta og Hollendinga, undir hótunum, sem hann var svo heiðarlegur að segja frá í dag. Og það vita allir að slíkir samningar hafa ekki gildi, frú forseti, hvergi nokkurs staðar. Nú er hann í þeirri stöðu að hann er búinn að skrifa undir samninga og hann getur ekki farið í þriðja skiptið og skrifað undir samninga. Það held ég að sé alveg borin von.

Alþingi á að tilnefna samninganefnd allra þingflokka og hún á að fá til sín bestu sérfræðinga í heimi. Við skulum setja í þetta 500 millj. kr., ef því er að skipta, og ráða til okkar bestu sérfræðinga í heimi í alþjóðasamskiptum, í alþjóðaviðskiptum, í verðbréfaviðskiptum o.s.frv. til að ná betri samningum við Breta og Hollendinga, sérstaklega hvað varðar vextina. Þeir vextir sem nú eru nálgast það að vera „junk bond“-vextir. Ég fór að skoða það á netinu hvert álagið er á „junk bond“ umfram næsta flokk fyrir ofan. Álagið er 3–4%. Það þýðir að við gætum núna farið að sætta okkur við það að detta niður í „junk bond“-flokk og borgað kannski 5% vexti umfram — það eru reyndar skammtímavextir, ég tek það fram, en 5,55% voru langtímavextir — borga þessa sömu vexti í kannski 1–2 ár og sætta okkur við það. Þar er nóga peninga að hafa. Á þeim markaði, á „junk bond“-markaðinum, er nógur peningur, fjármagn sem vill taka áhættu. Þegar menn skoða stöðu Íslands munu þeir sjá að það er engin áhætta á Íslandi. Góður gjaldeyrisaðgangur, sólíd infrastrúktúr, mjög sterkur útflutningur og afskaplega sveigjanlegt efnahagskerfi, afskaplega sveigjanlegar fjölskyldur, afskaplega sveigjanleg atvinnufyrirtæki. Ég er viss um að við fengjum ágætisvexti þó að við færum niður í „junk bond“ í eitt eða tvö ár.

Þetta er það sem hæstv. ráðherra ætti að gera. Þetta mundi losa hann úr þeirri klemmu sem hann er kominn í. Þetta mundi líka losa stjórnarliða úr þeirri klemmu sem þeir eru í. Ég hef ekki heyrt einn einasta þingmann á Íslandi lýsa því yfir að hann sé ánægður með þessa samninga, hann vilji gjarnan skrifa undir þessa samninga, honum þyki ljúft að borga Icesave. Ég hef ekki heyrt nokkurn mann lýsa því yfir. Allir segja: Við verðum að gera þetta. Við náum ekki lengra o.s.frv. Ég hugsa að sameiginleg nefnd allra flokka, þar sem flokkarnir yrðu þá skuldbundnir um niðurstöðuna, yrði miklu sterkari en hún þyrfti að hafa sérfræðiþekkingu, bæði innlenda og erlenda. Við þyrftum að kaupa sérfræðinga í breskum rétti dýrum dómum, og við skulum bara gera það. Hagsmunirnir eru þvílíkir. (Gripið fram í.) Já, ég hugsa að þeir hafi ekki verið notaðir. — Nú er tími minn að verða búinn, þetta er alveg ótrúlegt. Ég ætlaði að fara í gegnum fjóra punkta en ég er ekki einu sinni búinn með einn. Ég verð því að biðja um það, herra forseti, að fara á mælendaskrá aftur og ég ætla að vona að það bregðist ekki núna.