138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Fyrra atriðið, um einhverja skýrslu sem menn nota ekki, lýsir einmitt því að menn voru í nauðung. Menn máttu ekki semja þannig. Það var þrýstingur á menn frá Evrópusambandinu, frá Bretum og Hollendingum, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og alls staðar að, meira að segja frá Norðmönnum og Svíum. Af hverju skyldu Svíar kúga Íslendinga eða hjálpa til við að kúga Íslendinga? Vegna þess að tengsl þeirra við Bretland eru meira virði en tengsl þeirra við Ísland. Þetta er bara hagsmunamat. Þetta er ekkert annað en hagsmunamat.

En nú erum við komin í þá stöðu að Bretar og Hollendingar horfa upp á þetta mál. Í annað sinn er Alþingi Íslendinga að strögla við það. Við Íslendingar höfum stjórnarskrá sem Bretar hafa ekki, ég veit ekki hvernig það er í Hollandi, og það má ekki skuldbinda þjóðina, ríkissjóð, nema með lögum frá Alþingi. Það má vel vera að menn átti sig ekki á þessum mun. Alþingi Íslendinga er sá aðili sem gætir hagsmuna íslensku þjóðarinnar og Alþingi Íslendinga lætur ekki kúga sig. Að minnsta kosti er mjög erfitt að kúga Alþingi Íslendinga beint. Þess vegna kom Alþingi Íslendinga með fyrirvarana í sumar og þess vegna er hér rætt dag og nótt um þetta mál og alls konar fletir teknir upp, stöðugt nýir.

Varðandi það seinna, að skuldsetja sig til að fá hærra lánshæfismat eða bæta stöðu sína, er það náttúrlega fráleitt. Auðvitað vita matsfyrirtækin af Icesave og þau eru örugglega búin að reikna það að meðaltali upp í topp. Slæmur samningur breytir því engu um lánshæfið, en góður samningur gæti hins vegar bætt það. Ef raunvextir yrðu í hæsta lagi 0,5% — sem ég hef lagt til, ég vildi gjarnan að við sendum Bretum og Hollendingum tilboð um að raunvextir af láninu yrði aldrei hærri en 0,5% — mundu Bretar skilja það, taka vel í og (Forseti hringir.) þá mundi lánshæfismatið batna.