138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það er varðandi þá óvissu sem ríkir um stjórnarskrárhlutann og ýmsa aðra þætti í þessu lagafrumvarpi. Hv. þingmaður hefur minnst nokkrum sinnum á vaxtaþáttinn og þá miklu óvissu sem þar ríkir og hefur m.a. dregið upp ákveðna mynd af því hvað getur gerst í versta falli. Við þekkjum væntanlega flest hér inni hvað getur í besta falli gerst, það er sú mynd sem hefur m.a. verið haldið á lofti af stjórnvöldum. Mig langar að spyrja hv. þingmann um stærstu hættuna varðandi vextina. Við fáum misvísandi skilaboð inni á þingi. Stjórnarliðar, þeir fáu sem hafa þó talað, m.a. hæstv. forsætisráðherra, gera mjög lítið úr þessari hættu, kannski eðlilega. Ég veit að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur lagt mikla vinnu í að skoða þennan þátt og velta honum fyrir sér og því langar mig að spyrja hann út í helstu hættuna í vaxtaþættinum og þá um leið efnahagslegu fyrirvörunum. Ég er a.m.k. ósammála þeirri fullyrðingu að þeir hafi ekkert breyst. Fyrir þingmann eins og mig sem greiddi atkvæði á móti samningnum í ágúst, taldi þó að hann væri skárri en upphaflegi samningurinn, er vitanlega ómögulegt að mæla með því frumvarpi sem nú liggur fyrir í ljósi þess að það er enn þá veikara en ágústlögin sem voru samþykkt.

Ég vil gjarnan, herra forseti, heyra um vextina því að mér hefur þótt (Forseti hringir.) vanta aðeins á umræðuna um þá hér.