138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Margréti Tryggvadóttur fyrir ágæta ræðu. Hún varpar ljósi á eða setur málið í svolítið annað samhengi en gert hefur verið hér fyrr í dag. Ég hjó eftir nokkrum atriðum í ræðu hennar sem mér fundust sérstaklega athyglisverð. Ég nefni t.d. þar sem hún talaði um upplýsta ákvörðun þingmanna og ég vildi spyrja hv. þingmann hvort hún telji að ákvörðun sem væri tekin, segjum eins og umræðan stendur núna, gæti talist upplýst ákvörðun af hálfu þingmanna í ljósi þess að hér hafa komið fram fjöldamargar spurningar og athugasemdir sem ekki hefur verið svarað. Hér hafa þingmenn stjórnarandstöðunnar haldið margar efnismiklar ræður en fátt verið um svör af hálfu hæstv. ráðherra, ríkisstjórnarinnar og hennar fylgismanna. Eins vildi ég spyrja hana, af því að ekki virðist vera hægt að leita þeirra skýringa hjá hv. stjórnarliðum sjálfum, hvort hún hafi einhverja skýringu á því að stór hluti þeirra sem virðist ætla að styðja þetta mál telur ekki ástæðu til að rökstyðja þá ákvörðun sína í þessari umræðu eins og þeir hafa þó haft fjölmörg tækifæri til. Ég nefni þetta sérstaklega vegna þess að akkúrat núna á síðustu mínútunum hefur fjölgað nokkuð hv. stjórnarliðum í þinghúsinu og ég velti fyrir mér hvort það kann að boða einhverjar breytingar í þessum efnum, en ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Margrét Tryggvadóttir getur á einhvern hátt getið sér til um hvað veldur því að hv. stjórnarliðar hafa ekki talið ástæðu (Forseti hringir.) til að rökstyðja afstöðu sína.