138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:42]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, sérstaklega fyrir að setja málið allt í samhengi vegna þess að upplifun mín er sú að eftir því sem við ræðum málið ítarlegar og köfum dýpra í það, sem er algerlega nauðsynlegt að mínu mati, þeim mun betur gerir fólk úti í samfélaginu sér grein fyrir hversu hrikalegar afleiðingar þetta einstaka mál mun hafa á framtíðina.

Mig langar til að spyrja þig vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra, sem hefur sýnt okkur þann heiður að sitja í þingsal án þess að setja sig á mælendaskrá, var í merku viðtali í Ríkisútvarpinu fyrir ekki svo löngu síðan og sagði að honum þætti aðhaldsstigið hjá eigin ríkisstjórn einkennast af miklu alvöruleysi. Ég get tekið undir það, ég held að þetta sé alveg hárrétt hjá honum að aðhaldsleysið, ruglið og óvissan sem einkennir allt starf þessarar ríkisstjórnar sé til mikils vansa. Eins og ég skil hæstv. félagsmálaráðherra, þá nefnir hann einstök dæmi, hann vill leggja af bílstjóra, hann vill leggja niður forsetaembættið, nefnir það t.d., hætta að vera með bílstjóra og eitthvað svona bruðl. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála hæstv. félagsmálaráðherra um að ráðherrar hætti að vera með bílstjóra og hvort hún hafi þá ekki um leið áhyggjur af væntanlegum niðurskurði varðandi fæðingarorlofið. Það er svo skemmtilegt hvernig fréttamaðurinn kemst að orði, hann segir að þetta sé eitt glæsilegasta og flottasta kerfið en það erum einmitt við framsóknarmenn sem eigum mestan heiðurinn af að koma því á.