138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:09]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum að það er ánægjulegt að þetta margir stjórnarþingmenn hafa komið til fundar en um leið er það sárgrætilegt að þeir skuli ekki vilja taka þátt í umræðunum. (Gripið fram í.) Þá væri ágætt að forseti fundaði með þingflokksformönnum og við gætum reynt að finna einhverja leið til að fá stjórnarþingmenn til að koma upp ef þeir treysta sér illa í umræðuna. Það væri hægt að finna einhver formerki á þá umræðu.

Ég get tekið undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það bíður manna að sagan dæmi þetta mál, að ræður manna verða skoðaðar, hvað menn hafa sagt hér og hvað menn hafa ekki sagt. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að hæstv. forseti þingsins veit hvað klukkan er. En spurningin sem hæstv. forseti þarf að spyrja sig er hverjum klukkan glymur. Ég er hræddur um að hún glymji ansi hátt við t.d. hæstv. félagsmálaráðherra, að hann muni (Forseti hringir.) þegar fram líða stundir verða vandræðalegur með allt sitt hér. (Forseti hringir.) Og hér glumdi klukkan.