138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:59]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningar hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar undirstrika fyrst og fremst hvað þetta er allt laust í böndunum. Ég veit ekki til þess, ég hef spurt um það, ég veit ekki til þess að það hafi verið gerð grein fyrir því. Hv. formaður fjárlaganefndar er í salnum og hann gæti kannski svarað því við tækifæri en ég held að það sé alveg klárt mál að í þeirri fjárlagagerð sem nú stendur yfir er ekki gert ráð fyrir neinu slíku og það væri líka óeðlilegt við þessar aðstæður vegna þess að það ekki búið að samþykkja þetta mál. En það er auðvitað margt mjög laust í böndunum, ekki bara í þessu máli heldur í svo mörgum og það þarf að fá svar við þessu, en það er rétt tala að skattar 80 þúsund af um 150 þús. tekjuskattsskyldum Íslendingum yrðu notaðir til að greiða vextina.