138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:07]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Johnsen fyrir ágætisræðu. Ég hef heyrt hann taka sterkar til orða í ræðustól og mér þykir einmitt ekki vanþörf á því í þessu mikla og stóra máli sem bindur komandi kynslóðir um ókomin ár um óvissa fjárhæð. Við vitum ekki hvað það er mikið. En hv. þingmaður sagði réttilega að það skipti öllu máli fyrir þjóð að bera sig vel og ég hef velt því fyrir mér eins og aðrir þingmenn af hverju stjórnarmeirihlutinn vill samþykkja málið.

Evrópusambandið hefur gefið það út að ef Íslendingar samþykkja ekki Icesave sé Evrópusambandsaðildin í voða. Ég ímynda mér að það sé aðalástæðan fyrir því að samfylkingarmenn vilja klára þetta mál. (Gripið fram í.) Það er eina ástæðan fyrir þann flokk og ég held að hún hafi verið undirliggjandi frá upphafi. En ég velti fyrir mér hvað með vinstri græna vegna þess að einu sinni sögðust þeir ekki vilja ganga inn í Evrópusambandið. (Gripið fram í: Fylgiflokkur.) Hvað ætli það sé hjá þeim flokki sem veldur því að þeir taka þessa miklu og undarlegu ákvörðun?

Mig langar líka að velta upp og biðja þingmanninn kannski að koma nánar inn á þann þátt málsins þar sem hann nefndi (Gripið fram í.) að við ættum núna að horfa á það sem íslenskt væri. Ég tek heils hugar undir þau orð. Það skiptir öllu máli í því ástandi sem við búum við núna að framleiðslugreinar úti um allt land séu í lagi, búi við öryggi, skýra löggjöf (Forseti hringir.) og að framtíðin sé alveg á hreinu.