138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú liggur það alveg kristaltært fyrir að norræna velferðarstjórnin er búin að brjóta tilskipun ESB um lágmarkshvíldartíma sem hefur verið innleidd í íslensk lög. Það hefur reynst forseta erfitt að segja til um tímann svo að ég ætla að reyna að hafa spurninguna aðeins víðari: Getur forseti upplýst hvort menn muni halda sig við vökulögin frá árinu 1921, um síðutogarana, sem var fyrsta baráttumálið sem náðist í gegn hjá íslenskri verkalýðshreyfingu eftir mikla baráttu? Það væri fróðlegt að sjá — þar var tryggð sex tíma lágmarkshvíld og við eigum að mæta hálfníu í fyrramálið, mörg hver — hvort norræna velferðarstjórnin geti upplýst það að menn muni reyna að halda sig við það viðmið, vökulögin frá 1921.