138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:26]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem mig langar til að ræða er sjónarhóll á þetta Icesave-mál sem nokkuð hefur verið minnst á, það hvernig eigi að standa undir að greiða af þeim skuldbindingum sem stjórnarflokkarnir vilja undirgangast. Þetta verður í framtíðinni gríðarlega mikið gjaldeyrisútflæði þegar farið verður að greiða vexti og höfuðstól upp úr 2016. Forsendan sem fjárlaganefnd hefur verið gefin fyrir því að hægt sé að standa undir þessu er reiknuð út af hagfræðideild Seðlabanka Íslands og er eitthvað á þá leið að hér verði viðskiptajöfnuður upp á 163 milljarða kr. á ári að meðaltali í 10 ár. Ef við miðum það við landsframleiðslu dagsins í dag eru það tæp 12% af landsframleiðslu þannig að það er þá viðskiptajöfnuður sem jafnast á við það sem gerist hjá olíuríkjum eins og í Dúbaí. Í síðustu ræðu minni fjallaði ég ítarlega um Dúbaí og Abú Dabí og þetta er svipað og í Abú Dabí.

Gott og vel, hvernig má það verða að það verði svona mikill viðskiptajöfnuður hjá landi sem ekki býr yfir einhverjum gríðarlegum náttúruauðlindum eins og t.d. Abú Dabí, olíu eða einhverju öðru slíku? Jú, Seðlabankinn gefur sér þá forsendu að til að svo megi verða verði innflutningur mjög dýr og það fáist mikið fyrir útflutning. Með öðrum orðum reikna þeir með því að svokallað raungengi sem er hlutfall milli t.d. launa innan lands og launa erlendis verði í sögulegum lægðum, verði í kringum 0,8. Í gegnum áratugina hefur þetta hlutfall eða raungengi verið að meðaltali í kringum 1 og það hefur endurspeglað mjög vel lífskjörin á Íslandi. Þegar raungengið lækkar, þ.e. þegar launakostnaður innan lands lækkar miðað við launakostnað erlendis, styrkist samkeppnisstaða Íslands gríðarlega mikið sem þýðir að það verður gríðarlega hagstætt að flytja út og óhagstætt að flytja inn sem þýðir að það verður mikill viðskiptaafgangur. Þetta er „mekkaníkin“ í fljótu bragði.

Eins og ég sagði áðan hefur aldrei í Íslandssögunni orðið svona mikill viðskiptaafgangur. Ef ég man rétt var halli á viðskiptum við útlönd á síðasta áratug eitthvað í kringum 600 milljarðar. Það eru svolítið aðrar tölur en Seðlabankinn reiknar með og jafnframt hefur viðskiptajöfnuður aldrei orðið meiri en 30 milljarðar á ári. Aftur á móti er á þessu ári gríðarlega mikill vöruskiptajöfnuður og það er vegna þess að lítið er flutt inn en mikið flutt út, nákvæmlega af þeim ástæðum sem ég sagði frá áðan. Hvað skyldi það endurspegla ef raunin yrði sú að raungengið yrði þetta? Jú, það mundi endurspegla það að lífskjör á Íslandi yrðu miklum mun verri en í nágrannalöndunum. Af hverju segi ég það? Jú, vegna þess að innflutningurinn er dýr og launin lág miðað við laun erlendis og það eina sem getur gerst er að þá myndast þrýstingur af fólki að leita í betri lífskjör úr slæmum lífskjörum hérna. Hv. þm. Þór Saari hefur lagt mikla áherslu á þetta og sýnt með ágætisrökum fram á að við þurfum að hafa áhyggjur af þessu atriði og að okkur beri að hafa áhyggjur af því. Ég er þingmanninum sammála um að það er algjörlega ljóst að Íslendingar eru vel menntað fólk, aldurssamsetningin er þannig að það er margt ungt fólk á Íslandi og ef fólk sér fram á að lífskjör í nágrannalöndunum eru mun betri en hér er engin ástæða fyrir það til að staldra við á Íslandi, tungan er engin fyrirstaða, menntunin er engin fyrirstaða og Íslendingar hafa sýnt að þeir hafa þor og jafnvel sumir að þeir eru fífldjarfir. Ég held að það sé verulega mikil ástæða til að hlusta á þessi varnaðarorð, ef spá Seðlabankans rætist mun fjara undan vinnuaflinu á Íslandi sem mun leiða til minni skattstofna og annars slíks sem mun leiða til óendanlegra efnahagslegra vandamála.

Hitt er annað mál að ég hef enga trú á að þessi spá Seðlabankans rætist. Ég vona raunverulega að hún rætist ekki, að raungengið verði svona lágt, vegna þess að ég vil ekki að lífskjör á Íslandi verði með því versta sem gerist, ekki bara í Evrópu, við þurfum jafnvel að leita út fyrir Evrópu til að finna lífskjör sem yrðu sambærileg til langs tíma litið. Ég vona að íslenska hagkerfið nái að rísa upp úr þessari öskustó og hef enga trú á öðru en að Ísland geri það. Þá situr samt eftir vandamálið hvernig á að borga skuldirnar sem er búið að hlaða upp. Við því höfum við ekki fengið svar. Ekki ein einasta tilraun hefur verið gerð til að svara þessari brennandi spurningu: Hvernig á að standa undir þessum skuldum?

Við getum alveg borgað þetta, það er ekkert mál. Við getum borgað þetta með því að skera niður velferðarkerfið, menntakerfið, heilbrigðiskerfið, framkvæmdir og annað slíkt þannig að allt okkar aflafé fari í að borga þessar skuldir. Og það er viðvörunin. Ég hef engar áhyggjur af því að ekki sé hægt að standa í skilum með því að draga allt saman en aftur á móti: Hvaða lífskjör búum við þá við á Íslandi? Hvaða lífskjör eru þeir sem ætla sér að samþykkja þetta frumvarp að bjóða komandi kynslóðum upp á?

Í mínum huga er þetta ekki pólitískt mál, enda hefur það sýnt sig að í sumar náðum við mjög vel saman þverpólitískt, fólk úr fjórum pólitískum hreyfingum. Að vísu var Samfylkingin söm við sig og vildi ekki taka þátt. Hv. þm. Árni Johnsen orðaði það ágætlega þegar hann sagði að samfylkingarmenn tryðu bara á hvítu dúfurnar, að þær mundu flögra inn í Evrópusambandið og það væri það eina sem skipti máli í þessu samhengi. Þetta tel ég gríðarlega mikla skammsýni. Það er búið að vara svo mikið við þeim vandamálum sem fylgja þessum samningum, þeim afarkostum sem á okkur eru settir, og menn hafa raunverulega tekið þverpólitískt tillit til þessara viðvarana en samt á að þröngva þessu í gegn. Ég hef leitað í hugskoti mér að skýringu á því hvernig standi á þessu.

Hv. þm. Árni Johnsen fór í ágætri ræðu í löngu máli yfir þá röksemdafærslu sína að þetta væri þrá eftir Evrópusambandinu hjá Samfylkingunni en það er ekki nóg. Hvernig skýrir það hegðun Vinstri grænna í málinu? Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ástæðan fyrir því að stjórnarþingmenn eru tilbúnir að leggja svona mikið undir, leggja svona mikið að veði, sé ekkert annað en þráin eftir völdum.