138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:36]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að hv. formaður fjárlaganefndar skuli heiðra okkur með nærveru sinni og gjamma fram í þegar svo ber undir. Ef það er eina leiðin til að fá fram efnislega afstöðu hans hér núna og annarra þingmanna verður bara svo að vera. Hvet ég hv. þingmenn sem eru hér af hálfu meiri hlutans til að tjá sig með einum eða öðrum hætti.

Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir prýðisræðu og innlegg hans sem hagfræðings í alla þessa umræðu. Okkur hefur ekki veitt af því að fara mjög ítarlega ofan í þetta mál og stóra spurningin er einmitt þessi: Getur þjóðin staðið undir þessum skuldbindingum?

Hv. þingmaður fór yfir það að vissulega geta ríki í sjálfu sér ekki orðið gjaldþrota. Að meginstefnu gerist það ekki. Menn ganga í Parísarklúbbinn og reyna að semja sig einhvern veginn undan þeim skuldbindingum sem eru að sliga þjóðina. En hann sagði einmitt líka og mér fannst það athyglisvert og get tekið undir það að það verður náttúrlega bara gert með því að skera niður í velferðarkerfinu, heilbrigðismálum og menntamálum en um leið mundi það að mínu mati dýpka kreppuna og lengja þann tíma sem Íslendingar munu eiga í kröggum. Hann orðaði það ágætlega áðan að þá væri þjóðin illa stödd. Mér þætti vænt um ef hann kæmi kannski aftur inn á þennan punkt (Forseti hringir.) og skýrði hann aðeins nánar.