138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:51]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa ágætu spurningu vegna þess að þetta er raunverulega hluti af þeim grundvallarmisskilningi sem virðist vera í gangi hjá stjórnarliðum sem virðast vera tilbúnir til að samþykkja þetta á þeim forsendum að efnahagslegu fyrirvararnir séu jafnvel orðnir sterkari núna.

Meginhugsunin þegar efnahagslegu fyrirvararnir voru samdir var sú að við vildum tryggja það að okkur stafaði ekki efnahagslega hætta af því ef ástandið yrði þannig að við gætum ekki staðið undir greiðslum afborgana og vaxta af þessum Icesave-samningum. Þetta var gert með því að tryggja að við mundum aldrei borga meira en 6% af hagvexti og árið 2024 mundi standa eftir, ef allt hefði farið á versta veg, einhver upphæð sem þá kæmi til samninga við Hollendinga og Breta um hvernig ætti að fara með. Það er grundvallarbreyting. Nú borgum við alltaf vexti og vextirnir eru 37–38 milljarðar á ári.

Í öðru lagi er búið að framlengja tímann þannig að þess vegna er það óendanlegt hversu lengi við borgum af þessum lánum. Það er búið að breyta þessu í teygjulán og fjarlægja þá hlíf sem var í efnahagslega fyrirvaranum, sem átti að koma í veg fyrir þessa áhættu. Það er búið að taka það, aftengja það og setja það í einhvern búning (Forseti hringir.) sem stenst ekki skoðun þannig að efnahagslegi (Forseti hringir.) fyrirvarinn er fallinn, sama hvað hver segir.