138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir ágætisræðu. Hann þekkir þetta mál vel í grunninn eftir að hafa starfað að því ásamt mér í fjárlaganefnd núna í hálft ár. Það virðast ekki vera nein endimörk á þessu máli og ég leyfi mér að minna á og því sé haldið til haga að það var fjármálaráðherra sem dró málið aftur inn í þingið og þess vegna erum við hér, þó að Alþingi Íslendinga hafi afgreitt það með sóma í sumar.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann út í mál vegna þess að hann er löglærður maður og hefur setið og tekið á móti mörgum lögspekingum í fjárlaganefnd. Það er ekki lengra síðan en í gær að við fengum þangað fjóra aðila og fengum ég segi ekki jafnmörg álit, en alla vega þrjú álit frá fjórum lögspekingum varðandi hugsanlegan stjórnarskrárvafa í þessu máli. Nú þekki ég ekki nægilega vel til en fyrsta spurningin er hvar honum finnist persónulega að farið sé hugsanlega á svig við stjórnarskrána í þessu máli. Í öðru lagi, hvernig er hægt að leysa úr þeim vafa og hvað væri hægt að gera með þetta mál til að við endum ekki á því hugsanlega að brjóta stjórnarskrána? Er hægt að gera á því einhverjar lagfæringar eða þarf einfaldlega að draga það til baka og hugsa það upp á nýtt?