138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir þeim orðum hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar að á Alþingi hefði verið rætt um Ríkisútvarpið í einar 119 klukkustundir. Þetta eru áhugaverðar upplýsingar og ég verð að játa að úr minni mínu hefur liðið þessi atburður, þ.e. tímalengd hans og hversu mjög þær umræður hljóta að hafa reynt á þá sem í þeim stóðu. Þegar verið er að ræða eitthvert mikilvægasta mál sem inn í Alþingi hefur komið er undarlegt að heyra á mörgum þeim sem ég hef fullvissu fyrir að hafi tekið þátt í maraþonumræðunni um hið mikilvæga mál Ríkisútvarpið að það sé fullkomin goðgá og allt að því brjálsemi að tala rækilega og efnislega um þetta mál eins og við höfum gert í þessari umræðu. Við erum ekki enn þá farin að nálgast þó þá maraþonumræðu sem stóð um sjálft Ríkisútvarpið og er með engu dregið úr mikilvægi þeirrar annars ágætu stofnunar.

Nú hefur hv. þingmaðurinn setið, og situr, í fjárlaganefnd og þar hefur málið verið rætt. Þó að þetta mál hafi ekki fengið viðlíka og jafnítarlega umfjöllun og málefni Ríkisútvarpsins á Alþingi, og kannski vart við því að búast, hef ég áhuga á að heyra frá hv. þingmanni hvort hann meti það svo að fjárlaganefnd hafi fengið nægan tíma til umfjöllunar eftir að frumvarpið kom fyrir þingið, þ.e. eftir að breytingarnar urðu. Ég legg bara ekki að jöfnu þá umfjöllun sem fór fram í sumar við þá umfjöllun sem núna þarf að fara fram af því að það er það mikil breyting á málinu.

Er það mat hv. þingmanns að nefndin hafi farið nægjanlega í gegnum þetta mál (Forseti hringir.) og hafi verið nægilega vel úr garði gert til að fara í 2. umr.?