138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst að þeirri umræðu sem hefur orðið í þingsal og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kom að, umræðu sem snýr að þeim tíma sem þingið hefur tekið sér til að ræða þetta mikilvægasta mál sem hingað hefur komið inn áratugum saman og jafnvel í allri sögunni samanlagt, í það minnsta eitt það mikilvægasta. Það væri áhugavert að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi upplýsingar um það hversu langan tíma Alþingi Íslendinga tók í að ræða vatnalögin þegar þau voru hér síðast til umræðu, þær breytingar sem voru gerðar frá þeim vatnalögum sem voru í gildi og hvort draga megi einhvern lærdóm af því hversu mjög þurfi að vanda til mála í þinginu. Ef hv. þingmaður hefur ekki þessar upplýsingar, getur hann ekki verið sammála mér um að það væri áhugavert að beina því til forseta þingsins að taka saman upplýsingar um slíkar umræður, hversu lengi þingið ræddi hið mikilvæga mál vatnalögin og eins það hversu lengi einstakir hv. þingmenn töluðu í því máli, og bera það síðan saman við þær umræður sem urðu um hina mikilvægu stofnun Ríkisútvarpið?

Þetta er nauðsynlegt vegna þeirrar umræðu sem hefur orðið um að hér sé verið að beita málþófi í umræðu um eitthvert mikilvægasta mál sem hefur komið inn til þingsins.

Í framhaldi af orðum hv. þingmanns sem hér talaði áðan og nefndi að hann gæti rætt í síðara andsvari sínu aðra þætti sem sneru að hinu mikilvæga máli eignauppgjörinu og eignum Landsbankans vil ég segja, frú forseti, að ég er mjög spenntur að heyra skoðanir hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar á þeim þættinum. Þar er um gríðarlega mikilvægt mál að ræða og auðvitað setur að mönnum nokkurn ugg yfir því að við hv. þingmenn höfum ekki getað kynnt okkur nægjanlega vel einmitt þá þætti sem ég hlakka til að heyra (Forseti hringir.) frá hv. þingmanni hvernig við getum snúið okkur út úr þannig að við getum tekið eðlilega ákvörðun í málinu hérna.