138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:30]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að norræna velferðarstjórnin ætli líka að brjóta vökulögin frá 1921. Ég er hér með smátexta sem Konráð Rúnar Friðfinnsson tók saman út af þeim. Þar segir, með leyfi forseta:

„Í dag viðurkenna flestir mátt og nauðsyn hvíldartímans. Í hvíldartímanum felst máttur. Í hvíldinni safna menn kröftum og þeir endast lengur. Að beygja sig undir slíkan sannleika felur í sér viðurkenningu á augljósum hlut.“

Þetta er nú svolítið eins og ef maður hefur einhvern tímann verið í útvarpsþætti, sem ég veit að virðulegur forseti hefur kannski verið í — ég fékk bréf frá heilbrigðisstarfsmanni, ætla að lesa það, með leyfi forseta:

„Ég hef verið að fylgjast með Alþingi síðustu dagana. Þar sem ég starfa nú við heyrn og því sem henni tengist velti ég einu fyrir mér. Þessi ansans bjalla sem spilar þarna við eyrað á ykkur sem er í púltinu, hefur verið mælt (Forseti hringir.) hvort þetta hljóð sé skaðlegt? Fundarstjórar berja þetta stundum eins og teppi á snúru. (Forseti hringir.) Með kveðju úr Grafarvoginum.“