138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er nokkurt óhagræði af því að hæstv. forseti skuli geyma sér að svara hinum fjölbreyttu fyrirspurnum þingmanna þar til allir hafa borið fram sömu spurningarnar aftur og aftur. Hugsanlega mætti stytta þessar umræður ef hæstv. forseti gæfi aðeins fyrr til kynna hvernig hún hyggst bregðast við þeim athugasemdum sem fram hafa komið. Við þær aðstæður að ekki koma svör telja menn sig nauðbeygða til að ítreka spurningarnar, það segir sig sjálft. Það hefur reyndar gerst trekk í trekk að menn hafa þurft að fara hingað upp hvað eftir annað til að spyrja sömu spurninganna og ég hygg að tillaga hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, um fund með þingflokksformönnum, hafi fullt vægi og fullt gildi. Ég minni á að það eru (Forseti hringir.) nefndarfundir í fyrramálið í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, í viðskiptanefnd og áreiðanlega í nefnd um fjölskylduvænan vinnustað.