138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég skirrist ekkert við því að vinna hér um nætur, er vanur því, en ég hef töluverðar áhyggjur af því eins og ég nefnt áður í kvöld, af því merki sem við gefum út í þjóðfélagið. Ég man eftir því og er hér með ræðu sem hæstv. forseti flutti á fyrsta fundi sínum 15. maí 2009 þar sem hún sagði að hún fagnaði því að nú hefðu konur aldrei verið fleiri á þingi og jafnframt að hún ætlaði að vinna að því að gera breytingar á starfsháttum Alþingis í því skyni að gera þingið fjölskylduvænna. Það sem við erum að gera hér er einmitt ekki þetta. Það sem við erum að segja við fjölskyldufólk, bæði karla og konur: „Ekki verða þingmenn, því að þá getið þið þurft að sæta því að sitja heilu næturnar, ekki eitt kvöld í viku, nei, kvöld eftir kvöld eftir kvöld á aðventunni, fjarri fjölskyldum ykkar.“ Ég kvarta ekki, frú forseti, en ég held að þetta sé afskaplega slæmt merki, ef við viljum fá jafnrétti á Alþingi og ef við viljum gera það fjölskylduvænt.