138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:57]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi í upphafi nefna það sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vék að í ræðu sinni sem varðar stjórnarskrána. Það hefur verið vísað til þess að fram hafa komið á opinberum vettvangi alvarlegar athugasemdir um stjórnarskrárþátt málsins frá virtum lögmönnum. Síðan er okkur kunnugt um að það fór fram fundur í fjárlaganefnd í gær þar sem ýmsir lögfræðingar voru kallaðir til og um þessi mál var rætt. Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, sem hefur verið hér manna þaulsetnastur í dag, meira að segja þaulsetnari en hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, hafi orðið þess var að komið hafi fram einhver gagnrök í sölum Alþingis við því sjónarmiði sem prófessor Sigurður Líndal, prófessor Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður hafa haldið fram, hvort hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi heyrt einhvern í sölum Alþingis vefengja málflutning þessara þriggja lögfræðinga, hvort einhver þingmaður hafi komið hér og lýst annarri skoðun en þessir virtu lögmenn og lögfræðingar hafa haldið fram. Ég hef ekki orðið var við það en ég veit að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur verið hér meira í dag en ég, þannig að það kynni að vera að ég hefði misst af einhverju í þessu sambandi og bið hv. þingmann að greina frá því.

Varðandi á hinn bóginn önnur atriði sem hv. þingmaður nefndi ætla ég að geyma það til síðara andsvars, en stjórnarskrárþátturinn er auðvitað svo mikilvægur að ekki verður fram hjá honum litið í framhaldi málsins.