138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svara með glöðu geði þessari spurningu hv. þingmanns einfaldlega á þann hátt að ég er í sjálfu sér ekki til þess bær að hafa efasemdir um að prófessor Sigurður Líndal hafi annað en rétt fyrir sér. Eins og hv. þingmaður benti á var ég varla hálfnaður með að fjalla um grein þeirra þriggja sérfræðinga sem skrifuðu í Morgunblaðið þegar ræðutíminn var búinn og þetta áhyggjuefni er mjög vel rökstutt í þessari grein. Ég hef ekki séð þetta viðtal á mbl.is við lögfræðinginn sem hv. þingmaður nefndi en ég ímynda mér að það sé í fullu samræmi við þá grein sem hann skrifar undir í Morgunblaðinu. Í grunninn erum við að fjalla um það sama, það má fullyrða og færa fyrir því rök, sem þeir gera svo ágætlega, að verið sé að skerða fullveldi landsins með þessum lögum. Þegar slíkt er sett fram með þeim hætti sem er gert og rökstutt getur Alþingi ekki hunsað slík orð. Það er óforsvaranlegt að gera slíkt og ég vona sannarlega að Alþingi muni beita sér fyrir því að með formlegum hætti verði fjallað efnislega um málið og það (GuðbH: Búið að því.) krufið til (Gripið fram í.) mergjar, skrifleg álit komi og farið vísindalega yfir málið.