138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:30]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Í fyrsta lagi hvað varðar þau orðaskipti sem áttu sér stað nýverið hlýtur niðurstaða forseta að vera fordæmisgefandi hvað varðar þennan lið, þ.e. um fundarstjórn forseta, og eru það gleðitíðindi fyrir okkur mörg í stjórnarandstöðunni. Hitt er það að forseti sagði fyrr í kvöld að áfram yrði haldið með fundinn þar til annaðhvort gerðist, að umræðu væri lokið eða mælendaskrá hefði tæmst. Þar af leiðandi er eðlilegt að við þingmenn spyrjumst fyrir um fyrirætlanir forseta því að nú er augljóst að mælendaskráin er að lengjast og engar líkur á því að umræðu verði lokið á næstu klukkutímum. Það er því eðlilegt að við köllum eftir því skipulagsins vegna að sett verði einhvers konar tímasetning á það hversu lengi við verðum. Ég tek fram að það skiptir mig engu úr þessu hvort það er eftir 1, 2, 3, 4, 5 eða 6 tíma, það skiptir ekki neinu máli. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er bara að það komi einhver ákvörðun í þetta mál.