138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að mér finnst einkennileg sú afstaða hæstv. forseta að þingfundurinn haldi áfram þar til mælendaskrá tæmist. Það hefur bæst við mælendaskrána. Það er ekki á valdi þingmanna sjálfra að stýra vinnunni. Hæstv. fjármálaráðherra dró þetta mál inn í þingið. Það var búið að afgreiða það í sumar. Hann kaus, hæstv. ráðherra, að draga það mál aftur inn í þingið og að sjálfsögðu þurfa menn að ræða það. Menn hafa rætt það á mjög málefnalegum forsendum og nýjar upplýsingar hafa komið fram eftir því sem liðið hefur á þingfundina.

Því óska ég þess, hæstv. forseti, að þessum fundi verði frestað vegna þess að það eru engar líkur á því að mælendaskráin tæmist fyrir kl. hálfníu þegar nefndafundir byrja. Mér finnst sjálfum ótækt að fundum sé haldið áfram kannski sólarhringum saman stanslaust og ef fólki finnst það vera eðlileg vinnubrögð við lagasetningu (Forseti hringir.) mótmæli ég því einfaldlega sem þingmaður og tel það forkastanlegt.