138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:01]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er lykilspurning í málinu. Ég er klár á því að mörgu þarna væri æskilegt að breyta. Ég er þess reyndar fullviss að hæstv. fjármálaráðherra og aðrir þingmenn, hvort sem þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, geta verið sammála því að þarna er margt sem við vildum hafa öðruvísi. Er nóg að horfa til þess að í 2. gr. frumvarpsins er sérstaklega kveðið á um það að við teljum okkur ekki bera neina skyldu til þess að greiða þetta yfir höfuð — þannig að þó að ekki væri nema það að við teldum æskilegt að borga ekki neitt.

Þannig er staðan kannski ekki og þá kemur upp sú spurning hvað sé hægt og hvað ekki hægt. Þar greinir menn á og þar eru stóru spurningarnar. Þar er hið erfiða mat sem bíður okkar þegar að því kemur að greiða atkvæði með og á móti frumvarpinu að þeir sem — (Gripið fram í: Fáum við að greiða atkvæði?) já, það er svo, hæstv. fjármálaráðherra, að að sjálfsögðu mun þingið taka afstöðu til þessa máls, það mun gerast að lokinni umræðu um málið. Þannig er að málið er á forræði þingsins og þingið mun taka þann tíma sem það þarf til að geta lagt mat á málið svo atkvæðagreiðsla geti farið fram, það er lykilatriði.

Auðvitað er það sá vandi sem er uppi að þeir sem segja nei við þessu eru þá að segja að þetta séu óásættanlegir skilmálar sem hafi verið þvingað upp á okkur Íslendinga. Annaðhvort er það þá þannig að við segjum bara nei, hvort sem menn meta það svo að hægt sé að ná betri árangri eða ekki, eða þá að menn eru þeirrar skoðunar að hægt sé að halda áfram með málið, það getur líka verið. Svo eru það þeir sem segja já við málinu og segja: Heyrðu, svona endar þetta. Þetta verður hver og einn að gera upp við sig (Forseti hringir.) að lokinni umræðu hér í þinginu og umfjöllun nefndar.