138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Í gær sagði virðulegur forseti okkur skemmtisögu af því hvernig dómsmálaráðherra fyrir nokkrum áratugum síðan taldi að hljóð afbakaðist einhvern veginn við það að fara inn á segulbandsspólur. Mig hefur oft grunað að þessi dómsmálaráðherra gæti hafa haft rétt fyrir sér vegna þess að spurningar mínar virðast einhvern veginn afbakast. Ég var ekki að spyrja um persónulegan þrifnað, virðulegi forseti, ég var að spyrja að því hvort hugsanlegt væri að maður gæti skroppið heim kannski hálftíma áður en nefndarfundir byrja til að fara í sturtu og raka sig. Ég var ekki að spyrja um persónulegan þrifnað, hvernig ætti að standa að honum, enda tel ég að ég sé fullfær um að ákveða það (Forseti hringir.) og finnst mér fara það bara ágætlega úr hendi.