138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég hef komið upp áður í kvöld og lýst yfir áhyggjum mínum af þeim fullveldissjónarmiðum sem hreyft var af virtum fræðimönnum í blöðum landsins í vikunni og því hvort það sé þannig að það frumvarp sem við ræðum á Alþingi Íslendinga brjóti gegn stjórnarskrá lýðveldisins. Fjallað var um þetta mál í fjárlaganefnd og hv. formaður fjárlaganefndar kom hér upp í einnar mínútu athugasemd við fundarstjórn forseta til að gera okkur þingmönnum grein fyrir því hvernig nefndarstörfum hafi verið háttað þennan dag og hver hans túlkun væri á því hvernig lægi í þessu öllu saman og lýsti þeirri skoðun sinni að það væri rétt að vera ekki með miklar áhyggjur af þessu máli.

Ég vil, hæstv. forseti, einfaldlega lýsa enn og aftur áhyggjum af þessari málsmeðferð og vil hvetja enn og aftur hv. formann fjárlaganefndar til að (Forseti hringir.) koma upp í ræðu og útskýra fyrir okkur hver (Forseti hringir.) rökin á bak við afstöðu hans eru.