138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson kom upp áðan og benti á að manni hefði verið meinuð aðganga að pöllum Alþingis. Það er klárt brot á þingskapalögunum vegna þess að það kemur mjög skýrt fram í 69. gr. laganna að þingfundir skuli haldnir í heyranda hljóði. Ekki nóg með það heldur er þetta nákvæmlega sama lagaregla og kemur fram í stjórnarskrá Íslands, nr. 33/1944, að fundir Alþingis skuli haldnir í heyranda hljóði. Þetta er ekki bara brot á þingskapalögum, þetta er líka brot á stjórnarskrá Íslands. Við höfum krafist svara um það frá hæstv. forseta hvort það sé rétt að mönnum hafi verið meinaður aðgangur að pöllum Alþingis (Forseti hringir.) og þar með hafi stjórnarskrá Íslands verið þverbrotin.