138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú hefur forseti verið nokkuð liðlegur við að ræða við þingmenn, m.a. um rakstur og annað slíkt, en þegar beint er til forseta efnislegum spurningum hvað varðar þingsköp og stjórnarskrá verður fátt um svör. Menn hafa bent á að sé ekki nóg með að verið geti að við séum að ræða frumvarp sem stangist á við stjórnarskrá, heldur kunni að vera að stjórn fundarins hafi verið með þeim endemum að jafnvel fundurinn sjálfur hafi orðið ólöglegur. Þetta eru allt auðvitað heilmikil firn.

Ég vil líka út af orðum hv. þm. Þórs Saaris áðan nefna það við forseta að það er auðvitað ekki til þess fallið að ná góðum sáttum um þingstörf hvernig haldið hefur verið á þingstjórninni í nótt. Ítrekað hefur verið kallað eftir því að fram komi tímasetning á fundinn og ég beini því til virðulegs forseta að íhuga aðeins hvaða áhrif fundarstjórn (Forseti hringir.) forseta muni hafa á samkomulagið í þinginu. Ég segi (Forseti hringir.) eins og er að það er ekki til hins betra.