138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Þór Saari fyrir ágæta ræðu. Ég hjó eftir því að hann talaði um fjármálastöðugleikasvið Seðlabanka Íslands og kom með athugasemdir um það. Nú held ég að flestir sem þekkja til mála og hafa hugleitt það af einhverri alvöru geti verið sammála um að það voru nokkur mistök þegar Fjármálaeftirlitið var skilið frá Seðlabanka á sínum tíma. Ég hefði gaman af að heyra skoðun hv. þingmanns á því hvort honum fyndist að aftur ætti að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið til að reyna að tryggja betur eftirlit með kerfisáhættu í sambandi við fjármálakerfi á Íslandi.