138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalega og góða ræðu eins og hans var von og vísa. Það sem ég vildi heyra frá hv. þingmanni eru viðbrögð við þeim fullyrðingum sem hér komu fram í kvöld. Hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar fullyrtu að fyrirvararnir sem gengið var frá, og forseti lýðveldisins vísaði m.a. til að væru ástæðan fyrir því að hann skrifaði undir lögin í sumar, væru ekki bara tryggðir heldur miklu betri núna en í sumar. Mér finnst þetta að vísu vera rökleysa og ég átta mig ekki á af hverju við erum þá að breyta þessu ef einhver telur hlutina vera með þessum hætti. Ég veit að hv. þingmaður þekkir fyrirvarana mjög vel og þess vegna langar mig að fá viðbrögð hans við þessari fullyrðingu.