138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég byggi það einfaldlega á samtölum mínum við þá. Þeim er illa við þetta mál og vildu að þetta væri frá og þetta væri afgreitt með öðrum hætti en verið er að gera. Þeir eru alls ekki allir sammála þessum vinnubrögðum. Þeir eru að vísu ekki margir, ég hef ekki rætt við þá alla en heyri það á sumum þeirra. Mér finnst það góðar fréttir því meðan er líf er von, segir einhvers staðar. Það rennur þó blóðið í sumum þeirra í þessu máli.

Þetta eru forkastanleg vinnubrögð sem viðhöfð eru á Alþingi þessa dagana með fundum klukkan fimm að morgni, fullur vinnudagur fram undan og hugsanlega langt fram á kvöld. Ég er búinn að vera vakandi núna í 23 klukkutíma en er að tjá mig um lagasetningu á Alþingi Íslendinga og á að vera að reyna að gera það af einhverju viti. Ég reyni að sjálfsögðu að gera það og bæti á mig kaffi með reglulegu millibili en þetta endar náttúrlega með ósköpum. Þetta veit hæstv. fjármálaráðherra og forseti Alþingis líka. Það væri vel ef þeir ákvæðu að fresta þessum fundi.