138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem fram hefur komið, þingmenn hafa verið með allra hófsamasta móti í garð hæstv. forseta sem ítrekað hefur látið sem vind um eyru þjóta þær spurningar sem fram hafa verið bornar og hafa allar verið málefnalegar og efnislegar og ekki gefið neitt tilefni til þess að þeim verði mætt með þögninni einni og því yfirlæti sem í því felst. Ég skora á hæstv. forseta sem auðvitað er kosinn hér til sinna starfa til þess að gæta hagsmuna allra þingmanna, en ekki bara einhverra tiltekinna flokka, að svara þeim spurningum. Ég beini til hæstv. forseta spurningu og bæti þannig kannski við spurningaflóðið: Hvert eiga hv. þingmenn að leita ef ekki til hæstv. forseta þegar þeir telja að þingsköp séu brotin eða að einhverjir gallar séu á framkvæmd þingfundar? Hvert eiga þeir að leita? Hvert geta menn hugsanlega leitað (Forseti hringir.) annað en til hæstv. forseta sem er forseti allra þingmanna?