138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Nú er klukkan farin að ganga sex að morgni og ég hef komið upp nokkrum sinnum áður undir þessum lið, um fundarstjórn forseta, þar sem mér finnst fundarstjórnin á Alþingi vera orðin meiri háttar afkáraleg. Það gengur ekki að það sé ætlast til þess að þingmenn haldi hér vöku sinni jafnvel á annan sólarhring við að ganga frá lagasetningu fyrir þjóðina. Sjálfur starfaði ég til sjós í 10 ár. Þar voru lágmarkshvíldarákvæði en það var akkúrat á þessum tíma, þegar menn voru búnir að vaka kannski í 22–25 tíma, sem slysin urðu. Þá urðu slysin, og þá verða slysin. Og hér verða slysin með þeim hætti að það hleypur kergja í þingmenn og allt þingstarf í framhaldinu mun fara í loft upp. Það er hlaupin kergja í mig. Ég mun aldrei samþykkja að þetta mál verði afgreitt út úr þinginu. (Forseti hringir.)